Hræðumst hið ókunna!

Þegar við hjónin fluttum til Danmerkur fyrir tæpum 6 árum var afskaplega hávær umræðan um innflytjendamál í þjóðfélaginu hér úti, og er enn. Ég upplifði mjög sterka þjóðernishyggju og þurfti ekki að vera lengi hérna til að sjá ástæður út frá fjárhagslegu sjónarmiði. Innflytjendur taka mun meira úr sjóðum hins opinbera en þeir setja í hann - held ég!

Fyrir rúmu ári síðan fórum við svo fyrir alvöru að hugsa um hvert ferðinni skyldi heitið þegar náminu væri lokið. Skyldi það vera Ísland, Danmörk, Austurríki eða jafnvel Ástralía. Frónið togaði óneitanlega sterkt og þess vegna fór ég að fylgjast með fréttum og almennri umræðu á Íslandi, sem ég hafði annars sett á pásu í nokkur ár.

Og mér krossbrá!!! Rasisminn sem ég upplifði í Danmörku fyrstu misserin birtist mér í nýju ljósi sem huggulegar og vel rökstuddar saumaklúbbsumræður. Hvað var eiginlega að gerast á Íslandi? Vorum við orðnir í minnihluta á skerinu? Færu menn kannski fljótlega að dusta rykið af hugmyndum Danakonungs frá 1783 um að flytja alla Íslendinga á Jósku heiðarnar til að bjarga þeim frá bráðum bana. Nú var váin ekki náttúruhamfarir heldur hræðilegir útlendingar sem ætluðu allt lifandi að drepa.

Ég verð að viðurkenna að saklausi litli sveitastrákurinn átti erfitt með að trúa sínum eigin augum og að ástandið á Íslandi væri jafn slæmt og umræðan gæfi til kynna. Eftir því sem leið á áttaði ég mig loksins á því að ég væri villtur í íslenskum skógi og þyrfti að grípa til þess örþrifaráðs að rísa á fætur og horfa yfir kjarrið.

BlogVissulega hefur hlutfall erlendra ríkisborgara aukist til mikilla muna á Íslandi, en það sem líka hefur breyst er tilkoma þess ágæta hlutar sem við köllum blogg. Þar geta menn látið móðann mása (amk. upp að vissu marki) og þannig sett sinn lit á umræðuna. Ég geri mér allavega miklar vonir um að umræðan á bloggsíðum mbl.is séu ekki raunveruleg lýsing á "Ástandinu" (sem áður tengdist enskumælandi hermönnum, en nú eru það austurevrópskir verkamenn). 

Undanfarin fjögur ár hef ég verið svo lánssamur að starfa í skóla þar sem umtalsverður meirihluti nemenda er af erlendu bergi brotinn. Sómalir og Líbanir hafa verið áberandi í þeim hópi, en einnig víetnamar, íranir og fjölmargar aðrar þjóðir. Pólverjar hafa reyndar verið af skornum skammti, en þeim hef ég verið svo lánssamur að kynnast fyrr og við önnur tækifæri. Allt það fólk sem hér um ræðir á eitt sameiginlegt. Þetta eru "homo sapiens" og í langflestum tilvikum virkilega ljúfir einstaklingar.

Og því get ég ekki annað en undrast umræðuna á Íslandi og velt fyrir mér spurningunni: "Við hvað eru menn hræddir?".

Ég get að sjálfsögðu ekki svarað fyrir þá fjölmörgu sem í bloggheimum hafa lýst vanþóknun á fólki með erlendan bakgrunn, en mig grunar að í mjög mörgum tilvikum séu menn hræddir við hið ókunna. Fæstir þessara einstaklinga hafa verið svo lánssamir að kynnast náið einhverjum aðilum sem þeir skilgreina sem svo hræðilega, því ég held að þá myndu menn í flestum tilvikum sjá að sér. En á meðan menn ekki þekkja er líka auðvelt að vera fordómafullur. Hvað pólverjana varðar á ég sérstaklega erfitt með að sjá skrattann á veggnum, enda mín reynsla af þeirri þjóð að þeir séu hörkuduglegir og á margan hátt mjög líkir okkur íslendingum í hugsun.

Ég held því miður að vandinn með þjóðernishyggjuna á Íslandi verði ekki leystur í nánustu framtíð, frekar en í öðrum löndum. Hinsvegar er það síðasta sem við meigum gera að leggja hendur í skaut og gefast upp fyrir rasismanum. Ég held að eina ráðið sem við höfum sé að einblína á góðu sögurnar og vona að þeir sem harðast ganga fram verði svo lánssamir fyrr eða síðar að kynnast þeim einstaklingum sem mynda hinn ógnvænlega hóp - "Útlendingar"!


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Góður og þarfur pistill. Kv. B

Baldur Kristjánsson, 14.3.2008 kl. 08:33

2 identicon

Er ekki líka bara málið að það er þessi litla prósenta af þessum "útlendingum" sem eyðileggja fyrir hinum...

Ekki erum við Íslendingarnir skárri úti í DK... er það nokkuð?? Margir hverjir orðnir hundleiðir á þessum "Íslendingahverfum"

Blaka (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 14:30

3 Smámynd: GK

Komdu til Íslands! Mig vantar dómara á leik á laugardaginn!

Góður pistill

GK, 24.3.2008 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband