Hvað er gott uppeldi?

Eitt af stóru viðfangsefnunum í náms- og starfsráðgjöf (sem og allri vinnu með börn og ungmenni, auðvitað) er þáttur foreldra í lífi ungmenna. Í gegnum tíðina hefur mikið verið ritað og rætt um fjölskyldur sem eiga erfitt með að fóta sig í samfélaginu og hvaða afleiðingar það hefur fyrir börnin, bæði til lengri og skemmri tíma. Um það gæti ég skrifað all marga bálka, en ætla hinsvegar að víkja mér að efni sem sjaldnar er talað um, enda oft erfiðara að greina undir yfirborðinu og án nokkurs vafa enn meira feimnismál en slæm félagsleg staða.

Það er nefnilega einu sinni svo að góð félagsleg staða og velgengni foreldra í atvinnlífinu er alls engin ávísun á að börnin eigi gott og ánægjulegt líf. Jafnvel þvert á móti! Foreldrar sem eru mjög uppteknir af eigin rassi og velgengni eru í áhættuhópi með að vanrækja börnin sín. Það að kasta í börnin dýrum gjöfum, tískuvörum og nýjustu tækninni er lítils virði ef þau ekki upplifa nærveru og alúð frá foreldrunum.

Í morgun fékk ég sent ljóð sem tekur vel á þessum vanda. Þar er á ferðinni meistari Þórarinn Eldjárn sem er síst þekktur fyrir að taka viðkvæm mál neinum vettlingatökum. Meðferðis var einnig linkur á samtökin "Samkóp" þar sem þessi gullmoli liggur ásamt mörgum öðrum góðum. Ég hef ekki heyrt um þessi samtök áður, en við fyrstu sýn virðist hugmyndin virkilega góð. Ég væri mjög til í að heyra um fleiri samtök af svipuðum toga ef til eru, en mun allavega fylgjast með starfsemi þessara samtaka.

Að síðustu kemur hér svo ljóðið hans Þórarins sem heitir "Tölvuleikur":

Með lafandi tungu við tölvuna sat hann
og tökkunum hamaðist á
en faðir hans þurfti á meðan að mata hann
og mamman bar kopp til og frá.

Þetta var leikurinn „Drepum og drepum
og drepum án miskunnar"
en strákurinn safnaði stigum og þrepum
og stolt sinna foreldra var.

Hann sat við svo lengi að á meðan óx mosinn
en metið sitt loks gat þó bætt.
Hann límdist við skjáinn, sat fastur og frosinn
og fann að hann gat ekki hætt.

Þá loksins kviknuðu í kollinum perur:
Hann kveinaði af skelfingu og fann
að innan í tölvunni voru verur
sem voru að leika með hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband