Færsluflokkur: Bloggar
13.3.2008 | 20:37
Hræðumst hið ókunna!
Þegar við hjónin fluttum til Danmerkur fyrir tæpum 6 árum var afskaplega hávær umræðan um innflytjendamál í þjóðfélaginu hér úti, og er enn. Ég upplifði mjög sterka þjóðernishyggju og þurfti ekki að vera lengi hérna til að sjá ástæður út frá fjárhagslegu sjónarmiði. Innflytjendur taka mun meira úr sjóðum hins opinbera en þeir setja í hann - held ég!
Fyrir rúmu ári síðan fórum við svo fyrir alvöru að hugsa um hvert ferðinni skyldi heitið þegar náminu væri lokið. Skyldi það vera Ísland, Danmörk, Austurríki eða jafnvel Ástralía. Frónið togaði óneitanlega sterkt og þess vegna fór ég að fylgjast með fréttum og almennri umræðu á Íslandi, sem ég hafði annars sett á pásu í nokkur ár.
Og mér krossbrá!!! Rasisminn sem ég upplifði í Danmörku fyrstu misserin birtist mér í nýju ljósi sem huggulegar og vel rökstuddar saumaklúbbsumræður. Hvað var eiginlega að gerast á Íslandi? Vorum við orðnir í minnihluta á skerinu? Færu menn kannski fljótlega að dusta rykið af hugmyndum Danakonungs frá 1783 um að flytja alla Íslendinga á Jósku heiðarnar til að bjarga þeim frá bráðum bana. Nú var váin ekki náttúruhamfarir heldur hræðilegir útlendingar sem ætluðu allt lifandi að drepa.
Ég verð að viðurkenna að saklausi litli sveitastrákurinn átti erfitt með að trúa sínum eigin augum og að ástandið á Íslandi væri jafn slæmt og umræðan gæfi til kynna. Eftir því sem leið á áttaði ég mig loksins á því að ég væri villtur í íslenskum skógi og þyrfti að grípa til þess örþrifaráðs að rísa á fætur og horfa yfir kjarrið.
Vissulega hefur hlutfall erlendra ríkisborgara aukist til mikilla muna á Íslandi, en það sem líka hefur breyst er tilkoma þess ágæta hlutar sem við köllum blogg. Þar geta menn látið móðann mása (amk. upp að vissu marki) og þannig sett sinn lit á umræðuna. Ég geri mér allavega miklar vonir um að umræðan á bloggsíðum mbl.is séu ekki raunveruleg lýsing á "Ástandinu" (sem áður tengdist enskumælandi hermönnum, en nú eru það austurevrópskir verkamenn).
Undanfarin fjögur ár hef ég verið svo lánssamur að starfa í skóla þar sem umtalsverður meirihluti nemenda er af erlendu bergi brotinn. Sómalir og Líbanir hafa verið áberandi í þeim hópi, en einnig víetnamar, íranir og fjölmargar aðrar þjóðir. Pólverjar hafa reyndar verið af skornum skammti, en þeim hef ég verið svo lánssamur að kynnast fyrr og við önnur tækifæri. Allt það fólk sem hér um ræðir á eitt sameiginlegt. Þetta eru "homo sapiens" og í langflestum tilvikum virkilega ljúfir einstaklingar.
Og því get ég ekki annað en undrast umræðuna á Íslandi og velt fyrir mér spurningunni: "Við hvað eru menn hræddir?".
Ég get að sjálfsögðu ekki svarað fyrir þá fjölmörgu sem í bloggheimum hafa lýst vanþóknun á fólki með erlendan bakgrunn, en mig grunar að í mjög mörgum tilvikum séu menn hræddir við hið ókunna. Fæstir þessara einstaklinga hafa verið svo lánssamir að kynnast náið einhverjum aðilum sem þeir skilgreina sem svo hræðilega, því ég held að þá myndu menn í flestum tilvikum sjá að sér. En á meðan menn ekki þekkja er líka auðvelt að vera fordómafullur. Hvað pólverjana varðar á ég sérstaklega erfitt með að sjá skrattann á veggnum, enda mín reynsla af þeirri þjóð að þeir séu hörkuduglegir og á margan hátt mjög líkir okkur íslendingum í hugsun.
Ég held því miður að vandinn með þjóðernishyggjuna á Íslandi verði ekki leystur í nánustu framtíð, frekar en í öðrum löndum. Hinsvegar er það síðasta sem við meigum gera að leggja hendur í skaut og gefast upp fyrir rasismanum. Ég held að eina ráðið sem við höfum sé að einblína á góðu sögurnar og vona að þeir sem harðast ganga fram verði svo lánssamir fyrr eða síðar að kynnast þeim einstaklingum sem mynda hinn ógnvænlega hóp - "Útlendingar"!
Bloggar | Breytt 14.3.2008 kl. 07:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2008 | 12:42
Ferðasaga á flugvöllinn
Nú þegar allt bendir til þess að við fjölskyldan flytjum aftur til Íslands í sumar, verða þær raddir sífellt háværari í kollinum á mér sem reyna að skilgreina hvaða reynslu, upplifanir og lærdóm maður fer með í ferðatöskunni aftur heim. Það er enginn vafi að eftir 6 ár á erlendri grund verður það ansi breyttur einstaklingur sem flyst á Klakann. Þær pælingar mun vafalaust verða uppsprettan að fjölmörgum bloggfærslum á næstu misserum, en að þessu sinni kemur lítil ferðasaga.
Það var nefnilega þannig að fyrir nokkrum árum fóru foreldrar mínir í kórferðalag til Kaupmannahafnar. Þau voru með stíft prógram, en við vildum ekki sleppa tækifærinu að hitta þau svo við skelltum okkur í höfuðborgina á föstudegi, eyddum laugardeginum í miðbænum og fórum svo að hitta þau á Kastrup þegar þau lentu uppúr hádegi á sunnudeginum.
Eftir morgunmatinn pökkuðum við í bakpoka og tókum strætó á ráðhústorgið, þar sem við hoppuðum upp í annan vagn sem flutti okkur á flugvöllinn. Samtals tók strætóferðin 75 mínútur og við vorum í sólskinsskapi, veifandi íslenska fánanum þegar Hornfirðingarnir byrjuðu að tínast einn af öðrum út um hliðið. Þegar hópurinn var allur kominn hoppuðum við upp í lest, sem flutti okkur aftur niður í miðbæ, þaðan sem hótelið þeirra var í 5 mínútna göngufæri. Við aðstoðuðum þá sem vildu við að tékka sig inn á hótelið og eyddum svo restinni af sunnudeginum með foreldrum mínum. Yndislegur dagur, þó stuttur væri.
Þó þessi saga virki kannski ekkert sérstaklega merkileg við fyrstu sýn, þá verður hún það kannski í þessu samhengi:
"Hefði manni dottið í hug við sams konar aðstæður á Íslandi að taka innanbæjarstrætó í Reykjavík á BSÍ og svo flugrútuna þaðan til Keflavíkur, til þess eins að taka á móti fólkinu í hliðinu og fara svo með þeim aftur í flugrútunni til Reykjavíkur?".
Svari nú hver fyrir sig, en ég leyfi mér að vera mjög efins um það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2008 | 10:06
Hvaðan kemur hamingjan?
Þegar við fjölskyldan sátum við morgunverðarborðið í morgun rak ég augun í gullkornasafn aftan á Cheerios-pakkanum. Þar er vitnað í ýmsa snillinga á borð við William Shakespeare, Davíð Stefánsson og Línu Langsokk. Það sem vakti mig þó mest til umhugsunar var setning höfð eftir Aristótelesi sem hljómar svona: "Hamingjan er undir okkur sjálfum komin".
Í fyrstu hljómaði þetta eins og önnur útgafa af "Hver er sinnar gæfu smiður", en þegar ég hugsa málið er það ekki svo. Það má nefnilega færa mörg rök bæði með því og á móti að hver sé sinnar gæfu smiður. Í samfélagi nútímans er mikið gert úr því að menn geti valið frjálst af öllum hillum þjóðlífsins, allir hafi jafnan aðgang að menntun osfrv. Þegar betur er að gáð er þessu þó ekki alltaf þannig farið og margir rekast á óyfirstíganlegar hindranir þegar þeir reyna að fikra sig í átt að draumum sínum sem þannig verða aldrei að veruleika. Sem betur fer er það þó þannig að margir hafa frjálst val og án efa mun fleiri en t.d. fyrir 40 árum.
Þá kemur aftur upp spurningin um hamingjuna. Í mínum huga er engin spurning um að þessi fullyrðing sé rétt. Ég hef lengi haft þá staðföstu trú að engu máli skipti hvernig menn eru staddir í veröldinni, hvort sem er fjárhagslega eða líkamlega - alls staðar er hægt að finna hamingju. Bölsýni og neikvæðni getur drepið hvern mann á sama hátt og bjartsýni og jákvæðni getur hjálpað mönnum að yfirstíga flestan vanda.
Mér verður til dæmis ansi oft hugsað til stórvinar míns á Selfossi, Svans Ingvarssonar, sem hefur verið bundinn við hjólastól síðan ég kynntist honum. Það sem Svanur hefur upplifað hefur alla burði til þess að kasta honum í dýpsta svarthol, en þess í stað hefur hann einstakt lag á að horfa á bjartari hliðar tilverunnar. Jákvæðari og skemmtilegri mann er erfitt að finna!
Eins hef ég mikið velt fyrir mér opinberunum bloggvinar míns, Heiðars, sem fjallað hefur á snilldarlegan hátt um geðsjúkdóm sem hann hefur slegist við í mörg ár, án þess að nokkur maður hafi getað séð það á honum (ef marka má athugasemdirnar á blogginu hans). Aldrei hefði ég getað ímyndað mér að hann berðist við slíka hluti, en samt sem áður efast ég ekki um að hann hafi fundið hamingjuna í lífinu.
Niðurstaðan hlýtur því að vera að hamingjan er alls staðar og hana má finna ef menn ætla sér það. Uppskriftin er að njóta þess jákvæða sem maður hefur öðlast í lífinu frekar en að einblína á það sem miður fer eða það sem mann hugsanlega vantar. Þetta verður boðskapur dagsins og ég vona að þið eigið öll góða helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2008 | 14:22
Hvað skal bæta og hvernig skal bætt?
Það er alltaf jákvætt þegar stjórnmálamenn eru tilbúnir að axla ábyrgð, ekki síst í svona tilviki þar sem þeir hafa væntanlega lítið haft um málið að segja þegar verst stóð á. Einhverjir myndu segja að þetta væri bras sem einvörðungu væri hugsað til að fá "goodwill", en hvort sem er hlýtur það að vera mikilvægt fyrir undirmáls-þjóðfélagshóp að fá opinbera viðurkenningu á að illa hafi verið farið með þá.
Hinsvegar má deila um hvort nóg sé gert og hvað megi fleira til bragðs taka. Ekki ætla ég að setjast í dómarasæti hér hinum megin á hnettinum, en ég efa ekki að margt sé gert til að reyna að bæta fyrir þetta þó vafalaust megi bæta enn um betur.
Einnig má velta upp spurningunni um það hvað skuli biðjast afsökunar á og hvað skuli bæta - svona á heimsvísu. Munu Bandaríkjamenn t.d. einhvern tímann biðja þá "íbúa" Guantanamo sem saklausir eru, afsökunar á að hafa verið haldið þar án dóms og laga í fjöldamörg ár? Mun einhver Rússneskur forseti framtíðarinnar biðjast afsökunar á því harðræði sem beitt hefur verið í gegnum tíðina til að ráða niðurlögum pólitískra andstæðinga? Mun bæjarstjórinn á Breiðdalsvík biðjast afsökunar á að hluti nærsveitarinnar hafi verið klipptur út úr hringvegi nr. 1 þarna um árið?
Það mun tíminn leiða í ljós!
Frumbyggjar beðnir afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.2.2008 | 12:01
Hvað er gott uppeldi?
Eitt af stóru viðfangsefnunum í náms- og starfsráðgjöf (sem og allri vinnu með börn og ungmenni, auðvitað) er þáttur foreldra í lífi ungmenna. Í gegnum tíðina hefur mikið verið ritað og rætt um fjölskyldur sem eiga erfitt með að fóta sig í samfélaginu og hvaða afleiðingar það hefur fyrir börnin, bæði til lengri og skemmri tíma. Um það gæti ég skrifað all marga bálka, en ætla hinsvegar að víkja mér að efni sem sjaldnar er talað um, enda oft erfiðara að greina undir yfirborðinu og án nokkurs vafa enn meira feimnismál en slæm félagsleg staða.
Það er nefnilega einu sinni svo að góð félagsleg staða og velgengni foreldra í atvinnlífinu er alls engin ávísun á að börnin eigi gott og ánægjulegt líf. Jafnvel þvert á móti! Foreldrar sem eru mjög uppteknir af eigin rassi og velgengni eru í áhættuhópi með að vanrækja börnin sín. Það að kasta í börnin dýrum gjöfum, tískuvörum og nýjustu tækninni er lítils virði ef þau ekki upplifa nærveru og alúð frá foreldrunum.
Í morgun fékk ég sent ljóð sem tekur vel á þessum vanda. Þar er á ferðinni meistari Þórarinn Eldjárn sem er síst þekktur fyrir að taka viðkvæm mál neinum vettlingatökum. Meðferðis var einnig linkur á samtökin "Samkóp" þar sem þessi gullmoli liggur ásamt mörgum öðrum góðum. Ég hef ekki heyrt um þessi samtök áður, en við fyrstu sýn virðist hugmyndin virkilega góð. Ég væri mjög til í að heyra um fleiri samtök af svipuðum toga ef til eru, en mun allavega fylgjast með starfsemi þessara samtaka.
Að síðustu kemur hér svo ljóðið hans Þórarins sem heitir "Tölvuleikur":
Með lafandi tungu við tölvuna sat hann
og tökkunum hamaðist á
en faðir hans þurfti á meðan að mata hann
og mamman bar kopp til og frá.
Þetta var leikurinn Drepum og drepum
og drepum án miskunnar"
en strákurinn safnaði stigum og þrepum
og stolt sinna foreldra var.
Hann sat við svo lengi að á meðan óx mosinn
en metið sitt loks gat þó bætt.
Hann límdist við skjáinn, sat fastur og frosinn
og fann að hann gat ekki hætt.
Þá loksins kviknuðu í kollinum perur:
Hann kveinaði af skelfingu og fann
að innan í tölvunni voru verur
sem voru að leika með hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2008 | 21:03
Hvers virði er sköpunargáfan?
Hér í Danmörku fara árlega margir listamenn um landið og ýmist skemmta landanum eða boða honum boðskap. Einn þeirra er snillingurinn Niels Hausgaard sem vissulega er afskaplega vinstrisinnaður, en hefur það til brunns að bera að geta séð samfélagið allt öðrum augum en margir eða flestir aðrir. Þar að auki hefur hann alveg einstakt lag á þjóðaríþrótt dana - kaldhæðni! Hann þegar hann setur fram fullyrðingar er ekki hægt annað en að dáðst að því hvað hann er fær í að segja þveröfugt við það sem hann meinar, án þess að maður sé nokkurn tíma í vafa um hina réttu merkingu.
Fyrir stuttu sáum við í danska ríkissjónvarpinu sýningu hans frá síðasta ári þar sem hann endurtók eitt lag frá árinu áður. Og kannski ekki að undra að hann endurtaki það enda með því betra sem ég hef bæði heyrt og séð. Þar fjallar hann um það hve auðvelt er fyrir kennara að drepa niður alla sköpunargáfu hjá börnum, sem að sjálfsögðu trúa öllu því sem þeir fullorðnu segja. Reyndar samdi hann hvorki lagið né textann, en flutningurinn finnst mér svakalega góður auk þess sem þetta passar vel inn í samfélagsádeiluna hjá honum. Textann læt ég fylgja hér fyrir neðan og svo tengil á lagið á youtube! Gaman væri að heyra hvað mönnum finnst (ef þeir skilja textann)!
På den allerførste skoledag fik de farver og papir.
Den lille dreng farved´ arket fuldt.
Han ku´ bare ik´ la vær´.
Og lærerinden sagde: Hvad er dét unge mand?
Det er blomster, sagde han.
Hun sagde: Nu ikke noget med kunst, unge mand.
I øvrigt er blomster røde og grøn´.
Hver ting til sin tid, unge mand.
Det her er ikke leg.
Du må lære at tage lidt hensyn.
Der er jo andre i klassen end dig.
Hun sagde: ´
Blomsten er rød, unge mand.
Stilken er grøn.
Sådan maler man en blomst,
og det har man altid gjort.
Så sådan skal man også blive ved med at gøre!
Men den lille dreng sagde:
Hvad så med farverne i regnbuen?
Hvad så med farverne når solen går ned?
Hvad med alle de andre farver?
Må de så ik´ vær´ med?
Jeg skal lære dig og være fræk! sagde hun.
Du skal vide, hvad der er rigtigt og forkert.
Og nu maler du blomster, som blomster skal se ud.
Og så siger du efter mig:
Blomsten er rød, unge mand......
Men den lille dreng sagde:
Hvad så med farverne i regnbuen......
Da blev lærerinden virkelig vred.
Hun smed drengen udenfor døren.
Nu står du her, og kommer ikke ind
før du kan opføre dig som andre børn.
Den lille dreng følte sig ensom.
Tårerne begyndte at trille.
Til sidst gik han ind til lærerinden
og sagde ligeså stille.
Han sagde: Blomsten er rød, stilken er grøn......
Tiden gik, som tiden gør.
Drengens far og mor sku´ flyt´.
Så han måtte begynde i en anden skole.
Hvor alting var så fuldstændig nyt.
Lærerinden smilede venligt.
Hun sagde, det skal være sjovt at male.
Der er så mange farver i blomsterne.
Kom, lad os male dem alle!
Men drengens blomster var røde og grønne.
De stod i række og geled.
Da lærerinden spurgte ham hvorfor,
sagde han og kigged´ ned.
Han sagde:
Blomsten er rød.
Stilken er grøn.
Sådan maler man en blomst, og det har man altid gjort.
Og sådan vil man altid gøre.
Bloggar | Breytt 11.2.2008 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.2.2008 | 20:38
Munu himnarnir hrynja?
Eftir að hafa fylgst með systkinum mínum blogga undanfarið sá ég að það gengi ekki annað en að láta ljós sitt skína í netheimum og ákvað ég því að stofna til síðu til að uppfylla það. Hversu oft hún verður uppfærð er ekki gott að segja enda hef ég ekki prufað slíkan miðil áður. Vonandi mun það þó ganga vel, en rétt að gefa sem fæst loforð.
Annars er markmiðið að nota þennan miðil til að koma ýmsum skoðunum og pælingum á framfæri, en ekki að vera dagbók eða annað upplýsingarit um persónuna og hans nánustu. Ef markmiðið hefði verið slíkt hefði ég líklega valið annan miðil!
Hvernig þetta mun ganga verður auðvitað að koma í ljós, en það er allavega tilraunarinnar virði að byrja. Megið þið vel njóta því það hef ég allavega hugsað mér að gera. Góðar stundir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)